Haustak í Grindavík og Rammi hf. á Siglufirði geta væntanlega tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið og sett af stað fullvinnslu á hráefni sínu eins og lagt var upp með.

Bæði fyrirtækin hafa fjárfest í dýrum búnaði til að vinna lýsi úr slógi. Þetta var gert í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið í íslenskum sjávarútvegi á seinni árum, sem er að fullnýta hvern fisk og ná þannig meiri verðmætum úr aflanum.

Matvælastofnun synjaði báðum þessum fyrirtækjum um leyfi til þess að nýta búnaðinn til manneldis á grundvelli reglugerðar Evrópusambandsins sem segir að ekki megi nýta innyfli í vörur sem ætlaðar eru til manneldis.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur nú gefið grænt ljós á nýtingu allra fisk- og fiskeldisafurða til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi, jafnvel þó ætlað sé til manneldis „svo framarlega sem meðferð hráefnisins uppfylli kröfur um hollustuhætti og matvæli,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Hann hefur undirritað breytingu á reglugerð þess efnis.

Hindrun rutt úr vegi
„Sá mikli árangur sem náðst hefur við að fullnýta sjávarafurðir er einn helsti styrkleiki íslensks sjávarútvegs,“ er haft eftir Kristjáni Þór í tilkynningunni.

„Fyrir um 18 mánuðum bárust mér upplýsingar um að regluverkið hér á landi varðandi þessa framleiðslu væri af einhverjum ástæðum strangara en þekkist t.d. i Noregi. Þá setti ég af stað vinnu innan ráðuneytisins og afrakstur hennar liggur nú fyrir með þessari breytingu. Þessi breyting er því sérstaklega ánægjuleg enda mun hún gera íslenskum fyrirtækjum kleift að fullnýta þessar afurðir.“

Í Noregi hefur þessu verið öðru vísi háttað en hér á landi til þessa. Þar sá norska matvælastofnunin, Mattilsynet, ekkert athugavert við að nýta slóg til manneldis, og hefur þó sömu Evrópureglugerðina til hliðsjónar.

Haustak hefur komið sér upp dýrum búnaði í húsakynnum sínum í Grindavík til að framleiða lýsi úr slógi, en sú verksmiðja hefur staðið ónotuð. Þá hefur Rammi hf. sett upp vinnslulínu frá Héðni hf. í frystitogara sínum, Sólbergi ÓF, þar sem ætlunin var að vinna hrálýsi um borð úr beingörðum, hausum og slógi.

„Við vorum búnir að sýna fram á það með Matís að við getum alveg fengið hágæðaolíu út úr þessu hráefni,“ sagði Tómas Þór Eiríksson hjá Haustaki í viðtali við Fiskifréttir í maí síðastliðnum.