Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ákveðið að hefja framhald sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka en umsagnir frá Seðlabankanum og þingnefnda um frekari sölu ríkisins á eignarhlutum í bankanum liggur nú fyrir.

„Framhald sölu verður háð því að markaðsaðstæður séu hagfelldar. Þrátt fyrir að ófriður í Austur Evrópu hafi haft margháttuð áhrif á eigna- og fjármálamarkaði á heimsvísu telur Bankasýslan að það raski ekki meginforsendum söluáformanna að svo stöddu. Þannig hafi verð á hlutum í bankanum ekki verið hærra en það er um þessar mundir,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Sjá einnig: Ekki gert ráð fyrir aðkomu almennings á fyrstu stigum

Ákvörðun ráðuneytisins er í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins frá 20. janúar síðastliðnum. Bankasýslan lagði til að eftirstandandi 65% eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur í nokkrum áföngum fyrir árslok 2023. Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um söluna segir enn fremur að stefnt sé að því að selja um það bil helming af eftirstæðum hlut ríkissjóðs í bankanum á þessu ári og hinn helminginn á því næsta.

Í minnisblaði Bankasýslunnar með tillögunni var lagt til að fyrsti hluti sölunnar fari fram með tilboðsfyrirkomulagi en á síðari stigum verði farin blönduð leið tilboðsfyrirkomulags og miðlunarleiðar.

Niðurstaða umsagnar Seðlabankans er sú að fyrirhuguð sala ríkisins myndi hafi takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð. „Verði þátttaka erlendra fjárfesta í samræmi við frumútboðið er ekki mikil ástæða til að hafa áhyggjur af áhrifum á innlendan gjaldeyrismarkað, sér í lagi ef áfangarnir verða fleiri en tveir,“ segir m.a. í umsögninni.