Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag að veita 160 milljónum króna í viðbótarframlög Reykjavíkurborgar og ríkis til tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu næstu þrjú árin. Árlegt viðbótarframlag borgarinnar mun samtals nema 73,6 milljónir króna.

Í tilkynningu frá borginni segir m.a. að einnig verði eigendalánum upp á 794 milljónir breytt í stofnframlög til Hörpu. Aðgerðirnar muni tryggja rekstur Hörpu til framtíðar. Með aðgerðunum er tekið á skuldum Hörpu sem komnar eru til vegna byggingarkostnaðar sem ekki var áætlað fyrir þegar ríkið og Reykjavíkurborg tóku bygginguna yfir og rekstrarkostnaðar sem var vanáætlaður í byrjun.

Í tilkynningunni segir jafnframt að rekstraráætlanir geri ráð fyrir að tekjur vegna ráðstefnuhalds fari stigvaxandi á tímabilinu til 2016. Markaðssetning Hörpu sem ráðstefnuhúss er í fullum gangi og hafa bókanir aukist mikið. Harpa hafi sannað menningarlegt gildi sitt og vakið verðskuldaða athygli á Reykjavík út fyrir landsteinana. Húsið hefur haft góð áhrif á tónlistarlífið í landinu og er orðið eitt helsta kennileiti Reykjavíkur.

Martröð margra

Pétur Blöndal , þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði viðbótarframlagið að efni sínu við upphaf þingfundar á Alþingi í dag. Hann sagði m.a. halla á landsbyggðina sem fari mun sjaldnar í Hörpuna en borgarbúar. „Draumur fárra er að breytast í martröð margra,“ sagði hann og átti þar við byrðarnar sem framlagið kostar skattgreiðendur.