*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 27. nóvember 2019 16:17

Grænt um að litast í kauphöllinni

Einungis eitt félag lækkaði og annað stóð í stað. Fjarskiptafélögin hækkuðu mest, eða um 5%. 3 félög hækkuð yfir 4%, og 6 yfir 3%.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,57% í 4,1 milljarða króna heildarveltu í kauphöllinni í dag og fór vísitalan í 2.101,18 stig.

Einungis eitt félag lækkaði í viðskiptum dagsins, það var Iceland Seafood, sem lækkaði um 0,10%, í þó ekki nema 26 milljóna króna viðskiptum og fór gengið niður í 9,85 krónur. Engin breyting var svo á gengi bréfa Heimavalla, þó viðskiptin með bréf félagsins næmu 2 milljónum króna og stendur gengi bréfanna enn í 1,18 krónum.

Mest hækkun var á gengi bréfa Símans, eða um 5,06%, í 677 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru þau mestu með eitt félag í kauphöllinni í dag. Fór gengið í 5,40 krónur. Næst mestu viðskiptin voru með bréf Festi, eða fyrir 546 milljónir króna, og hækkaði gengi bréfanna um 2,72%, upp í 132 krónur.

Næst mest var hækkun hins kauphallarfyrirtækisins á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði, Sýnar sem hækkaði um 4,72% í 99 milljóna króna viðskiptum. Loks var þriðja mesta hækkunin á gengi bréfa Icelandair sem hækkaði um 4,02% í 235 milljóna króna viðskiptum, og var lokagengi bréfa flugfélagsins 7,76 krónur.

TM og Hagar hækkuðu um nærri því jafnmikið, eða 3,99% og 3,95%, í 33,90 og 43,40 krónur, en viðskiptin námu 237 milljónum og 345 milljónum króna. Loks hækkaði gengi Kviku banka einnig yfir þrem prósentunum, eða um 3,12%, í 157 milljóna króna viðskiptum og fór gengið í 10,59 krónur.

Íslenska krónan styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, en mest var veiking japanska jensins, eða um 0,37%, niður í 1,1189 og svissneska frankans, eða um 0,31%, niður í 122,42 krónur. Evran lækkaði um 0,30%, niður í 134,55 krónur, og Bandaríkjadalur lækkaði um 0,20%, í 122,29 krónur.

Stikkorð: Nasdaq Kauphöllin hækkun