Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, OMXI10 hækkaði um 2,36% í rúmlega 2,1 milljarða viðskiptum og stendur nú í 1942,9 stigum. Alls hækkuðu 17 félög af 19 í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Mest hækkun var á bréfum Kviku banka en þau hækkuðu um 3,1% í 46 milljóna viðskiptum. Næst mest hækkun var á bréfum Marel en þau hækkuðu um 3,07% í 585 milljóna viðskiptum sem voru jafnframt mestu viðskipti dagsins.

Þá hækkuðu bréf Arion banka um 2,1% í 346 milljóna viðskiptum. Bréf bankans hækkuðu annan daginn í röð en eftir að hafa lækkað nær samfellt í þessum mánuði en frá lok septembermánaðar til síðasta fimmtudags höfðu bréfin lækkað um tæplega 12%.

Bréf Icelandair Group voru þau einu sem lækkuðu í viðskiptum dagsins eða um 0,72% í 29 milljón viðskiptum. Bréf flugfélagsins hafa verið í nær frjálsu falli frá því um miðjan júnímánuð og hafa lækkað um 50% á því tímabili.

Nokkuð grænt var yfir hlutabréfamörkuðum í Evrópu í dag en Euro Stoxx 50 vísitalan hækkaði um 0,58%, FTSE 100 vísitala bresku kauphallarinnar um 0,18%, DAX vísitala þeirrar þýsku um 0,91% og IBEX vísitala þeirra spænsku um 0,78%.

Þá var einnig grænt yfir mörkuðum á Norðurlöndun en norræna vísitalan OMX Nordic 40 hækkaði um 1,28% í viðskiptum dagsins. Mest var hækkunin á vísitölu kauphallarinnar í Stokkhólmi eða um 1,56% en í Helsinki hækkaði vísitalan um 0,86% og um 0,81% í Kaupmannahöfn.

Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hafa einnig hækkað það sem af er degi en þegar þetta er skrifað hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 0,59% og NASDAQ vísitalan hækkað um 0,88% á meðan Dow Jones vísitalan hefur hækkað um 0,19%.

Litlar hreyfingar á skuldabréfamarkaði

Velta á skuldabréfamarkaði nam 4 milljörðum króna í viðskiptum dagsins. Litlar breytingar voru þó á ávöxtunarkröfu ríkisbréfa. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði um 3 til 6 punkta á meðan ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisbréfa á gjalddaga 2021 hækkaði um 4 punkta en jafnframt var mest velta með þau bréf eða 1,1 milljarður í viðskiptum dagsins. Ávöxtunarkrafa annarra verðtryggðra ríkisbréfa stóð óhreyfð eftir daginn.

Krónan veiktist lítillega

Gengi krónu veiktist um 0,14% gagnvart evru í viðskiptum dagsins en hún styrktist um 0,14% gagnvart dollar. Þá veiktist krónan um 0,62% gagnvart sænskri krónu, 0,57% gagnvart þeirri sænsku og um 0,51% gagnvart pundi.

Breytingar á gegni annarra gjaldmiðla en evru kemur að mestu leyti til af breytingu í gegni evrunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Þannig hefur evran styrkst um 0,29% gagnvart dollar það sem af er degi á meðan hún hefur veikst um 0,37% gagnvart pundi, um 0,43% gagnvart sænskri krónu og um 0,48% gagnvart þeirri norsku.