*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Innlent 21. febrúar 2020 10:57

Grænustu félögin rjúka upp

Gríðarlegt innflæði í samfélagsábyrga sjóði hefur keyrt upp hlutabréfaverð grænustu fyrirtækjanna.

Ritstjórn
Kauphöllin í London.
european pressphoto agency

Ört vaxandi innflæði í samfélagslega ábyrga fjárfestingasjóði hefur valdið miklum verðhækkunum á þeim félögum sem koma best út í svokölluðum UFS mælingum (Umhverfi, félagslegir þættir og stjórnarhættir eða ESG á ensku fyrir environmental, social and governance).

Innflæði í slíka sjóði nam 21 milljarði dala – eða rétt tæpri vergri landsframleiðslu Íslands – í fyrra og fjórfaldaðist milli ára. Félögin sem um ræðir eru í frétt Financial times um málið sögð um 30% hærra verðlögð miðað við hlutfallið milli gangvirðis hlutabréfa þeirra og vænts hagnaðar en þau sem koma hvað verst út úr UFS mælingum.

Haft er eftir greiningaraðila að gjáin sem myndast hafi milli hefðbundinna félaga og þeirra grænu sé „tröllvaxin“, og sé drifin áfram af eftirspurn í áðurnefnda fjárfestingasjóði, sem finna þurfi sífellt fleiri græn fyrirtæki til að fjárfesta í. Orðið ‚bóla‘ hefur komið upp meðal svartsýnni greiningaraðila, á meðan aðrir taka aukinni áherslu fjárfesta á samfélagsábyrgð fagnandi.

Enn aðrir benda hinsvegar á að þróunin beri vott um heldur mikið blint traust til þeirra matsfyrirtækja sem sjá um UFS mælingarnar, en gagnrýnisraddir hafa í auknum mæli beinst að heiðarleika og áreiðanleika mælinganna, sem sagt er að gefi talsvert svigrúm til hagræðingar.