Spár Seðlabankans um verðbólgu grafa undan áhrifamætti peningastefnunnar og lengja þann tíma sem tekur að ná verðbólgumarkmiði bankans, að því er fram kemur í nýrri rannsókn Axels Hall og Friðriks Más Baldurssonar við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Í ágripi af niðurstöðum rannsóknarinnar segir að hún sýni að Seðlabankinn spái því ætíð að verðbólgumarkmiði bankans verði náð innan u.þ.b. tveggja ára, óháð því hver verðbólgan er þegar spáin sé gefin út. Samtök atvinnulífsins styrktu rannsóknina, sem verður gefin út á næstunni í ritröð Rannsóknarstofnunar í fjármálum.

Í niðurstöðunum segir að helsta ástæða þess að spálíkan Seðlabankans leiði til þeirrar niðurstöðu að verðbólgumarkmið bankans náist yfirleitt á spátímabilinu sé sú að verðbólgumarkmiðið sjálft hafi mikið vægi sem skýristærð í jöfnu fyrir verðbólguvæntingar. Verðbólguvæntingarnar séu síðan mikilvægasta skýristærðin í verðbólgujöfnunni.

Spár Seðlabankans hafa ekki gengið eftir og í rannsókninni segir að spárnar grafi í raun undan áhrifamætti peningastefnunnar og lengi þann tíma sem taki að ná verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .