Það er enginn skortur á umfjöllun um kínverska efnahagsundrið á Vesturlöndum. Frá því á tíunda áratug nýliðinnar aldar hefur verið gengdarlaus umfjöllun um hina miklu lífskjarabyltingu sem hefur átt sér stað í alþýðulýðveldinu - og óvenjuhátt hlutfall þeirra inniheldur einhverskonar myndlíkingar við nývaknaða dreka. Minna hefur borið á umfjöllun um þær fjölmörgu ógnir sem steðja að kínverska hagkerfinu en þrátt fyrir að uppgangurinn í efnahagskerfi landsins hafi verið nánast lygilegur þá er einni meginspurningu enn ósvarað: Verða Kínverjar ríkir áður en þeir verða gamlir? Sú staðreynd að ríflega helmingur allra ellilífeyrisþega í Asíu er Kínverjar bendir til þess að svarið við spurningunni sé nei.

Hlutfall ellilífeyrisþega af heildarmannfjölda vex hraðar í Kína en í nokkru öðru landi sem skiptir máli í stærra samhengi hlutanna. Í frétt dagblaðsins International Herald Tribune um málið kemur fram er að búist er við því að ellilífeyrisþegum muni fjölga um helming fyrir árið 2015 en þá er áætlað að þeir verði komnir í 200 milljónir. Um miðja öldina verða þeir ríflega 400 milljónir eða um þriðjungur af heildarmannfjöldanum. Það blasir við að þessi fjölgun mun skapa gríðarleg vandamál í hagkerfinu. Í dag eru sex vinnandi manns fyrir hvern ellilífeyrisþega. Að öllu óbreyttu verður hlutfallið einn á móti tveim sem þýðir að gríðarleg vandamál munu skapast í lífeyriskerfi landsins. Hlutfall af vinnu hvers manns mun þurfa að standa undir ellilífeyrisgreiðslum til tveggja.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.