„Ég vissi ekki á hverju ég átti von, en ég gat ekki ímyndað mér svo miklar og vel útfærðar endurbætur á Detroit stálinu þegar ég ók því í síðustu viku. Grand Cherokee hefur án efa áunnið sér rétt á Grand hlutanum í nafni sínu.” Þetta segir dálkahöfundurinn Scott Burgess m.a. í The Detroit News um upplifun sína af því að prófa 2011 gerðina af Jeep Grand Cherokee.

Fullmótaður pakki

Scott Burgess segir jafnframt í úttekt sinni að í fortíðinni hafi Jeep verið frábært torfærutæki með fáguðum jarðýtueiginleikum. „Hann var með skínandi plast mælaborði sem var eins og einhver hliðarafurð sem skolað hafði upp á ströndina á árbakka Mississippi. Nú er Grand Cherokee fullmótaður pakki, betri að innan og utan og betri jafnt á vegum sem utan þeirra.”

Fjórða kynslóð Cherokee

Nýi Jeep Grand Cherokee 2011 jeppinn er fjórða kynslóð bílsins sem hefur lifað af sér þrjú fyrirtæki og hnefafylli af forstjórum sem allir vildu skilja eftir sig sín fitugu fingraför á þessum bíl. Þegar Fiat SpA yfirtók Chrysler og sameinaði það upp úr gjaldþrotameðferð heyrðist lítið sem ekkert úr herbúðum Chrysler. Enginn nýr bíll birtist úr smiðjunni í Auburn Hills nema nýr Dodge Ram HD. Aulalegar endurbætur á Chrysler Sebring virkuðu illa á kaupendur. Segir Burgess að öll þessi þögn hafi líklega stafað af því að í Auburn Hills hafi hönnuðir verið önnum kafnir við að reka smiðshöggið á meistaraverkið Grand Cherokee 2011. „Þeir hafa sannarlega verið að vinna vinnuna sína.”

Á Bandaríkjamarkaði er nýi Grand Cherokee jeppinn boðin á verðum frá  30.000 dollurum, sem þykir mjög hóflegt.

Ný Pentastar V-6 vél

Bíllinn er með nýrri Pentastar 3.6-lítra V-6 vél og við hana er fimm gíra sjálfskipting sem þykir sérlega vel heppnuð. Vélin skilar 290 hestöflum og gefur hún 260 punda tog á fetið.

Eyðslan á langkeyrslu er um 23 mílur á gallon (mpg) og 16 mpg í borgarakstri. Meðaleyðslan er 22 mpg eins og Bandaríkjamenn eru vanir að skilgreina eyðslutölur.

Líka 5,7 lítra V-8

Þá er einnig hægt að fá 5,7 lítra V-8 vél í bílinn, en hún er nánast sú sama og Hemi V-8 vélinni sem margir bílaáhugamenn þekkja. Þessi vél skilar 360 hestöflum og er með tog sem á bandaríska vísu er skilgreint sem 390 pund á fetið.

Loftpúðafjaðrir

Hægt er að fá stillanlegar loftpúðafjaðrir á bílinn sem gefa hæð undir lægsta punkt frá vegi á bilinu 20,54 til 28,45 sentímetra sem hlýtur að teljast býsna gott af óbreyttum bíl að vera. Þegar bílnum er lagt í stæði og drepið á honum lækkar hann um 3,81 sentímetra.

Selec-Terrain drifkerfi

Í bílnum er svokallað Selec-Terrain drifkerfi svipað og þekkist í Land Rover. Það gefur ökumanni færi á að segja kerfinu fyrir um hvernig land er undir hjólunum og aðlagar bíllinn þá drif , bremsur og dempara að þeim skipunum á 12 mismunandi vegu.

Meira hjólahaf

Nýi Grand Cherokee jeppinn er síðan með 12,7 sentímetra lengra hafi á milli hjóla en fyrirrennarinn. Það gefur betra jafnvægi og bætir nýtingu á drifafli hjólanna í utanvegaakstri. Þá gefur þetta aukna hjólabil líka færi á 6,54 sentímetra meira fótaplássi fyrir aftursætisfarþega. Þá er bíllin hlaðinn ýmsum búnaði og þægindum.