*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 19. október 2020 18:02

Gray Line segir skilið við SAF

Gray Line hefur sagt sig úr Samtökum ferðaþjónustunnar vegna afstöðu samtakanna til gjaldtöku Isavia á Keflavíkurflugvelli.

Ritstjórn
Gray Line hefur sagt skilið við Samtök ferðaþjónustunnar.
Aðsend mynd

Hópbifreiðafyrirtækið Gray Line hefur sagt sig úr Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF), en Túristi greindi fyrst frá málinu. Þórir Garðarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, tjáir sig um úrsögnina í hópnum Bakland ferðaþjónustunnar á Facebook. Hann segir ákvörðunina að styðja úrsögn fyrirtækisins úr SAF hafa verið sér þungbæra.

Þórir segir ástæðu úrsagnar vera afstöðu núverandi stjórnar SAF til gjaldtöku Isavia á Keflavíkurflugvelli, en hann telur afstöðu samtakanna vera stefnubreytingu. „Ný stjórn SAF leit semsé á baráttu Gray Line gegn bílastæðaokri Isavia á fjarstæðum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli sem deilu milli tveggja félagsmanna í SAF og sagðist ekki geta tekið afstöðu í því máli," segir Þórir.

Hann segir að í huga Gray Line hafi félagið verið að berjast fyrir hagsmunum allrar ferðaþjónustunnar gegn okri ríkisfyrirtækja og annarra í markaðsráðandi stöðu sem hann telur hagnast óeðlilega með gjöldum á fyrirtæki í ferðaþjónustu.

„SAF taldi baráttu Gray Line einkamál fyrirtækisins, þó svo að þessi barátta hafi leitt til þess að Isavia neyddist til að lækka bílastæðagjöldin á ALLA hópferðabíla um 50-63%, Ekki aðeins það, heldur fylgdi Gray Line málinu svo vel eftir við Samkeppniseftirlitið að það setti Isavia skilyrði um að útreikningur þjónustugjalda yrði til framtíðar byggður á raunverulegum kostnaði," segir Þórir í færslunni.

Höfnuðu fjárstuðningi vegna málareksturs

Samkvæmt Þóri hefur Gray Line lagt í mikinn lögfræði- og ráðgjafarkostnað vegna málsins og óskaði félagið eftir því við SAF að samtökin legðu til tvær milljónir króna upp í kostnaðinn. Taldi hann það eðlilegt í ljósi þess að allur ferðabransinn hefði hag af baráttu þeirra, að þeirra mati, auk þess sem fordæmi væri fyrir slíku. SAF höfnuðu hins vegar beiðninni og telur Þórir ástæður höfnunarinnar ekki vera samtökunum til vegsauka.

Hann telur stjórn SAF hafa tekið sér stöðu með Isavia og hópferðarfyrirtækjunum tveimur sem höfðu gert samning um aðstöðu á nærstæðunum fyrir framan flugstöðina, Kynnisferðum og Hópbílum. Hann segir að Kynnisferðir og Hópbílar „studdu okrið á öðrum hópferðafyrirtækjum með ráðum og dáð, til að koma í veg fyrir samkeppni í akstri frá flugstöðinni. Og þar sem Isavia er félagi í SAF, þá segist stjórnin ekki geta blandað sér í svívirðilega okurgjaldtöku þess á öðrum félögum í samtökunum. Það er af sem áður var þegar hagsmunir heildarinnar gengu framar sérhagsmunum félagmanna í SAF."

Í samtali við Túrista segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, að „Í raun má segja að fjórar ólíkar skoðanir og hagsmunir hafi verið uppi meðal félagsmanna gagnvart málinu. Það gefur auga leið að það er ekki einfalt fyrir samtök eins og SAF að draga taum eins félagsmanns umfram aðra í slíkri deilu."

Þórir telur alveg ljóst hvers taum stjórn SAF dró í þessu máli og bendir á að framkvæmdastjóri Kynnisferða sitji í stjórn SAF.