Rútufyrirtækið Gray Line hefur ákveðið að segja upp 107 af 117, eða 91%, starfsmanna sinna að því er Vísir hefur eftir Þóri Garðarssyni stjórnarformanni félagsins. Eins og sagt var frá í fréttum sögðu Kynnisferðir upp 150 manns í morgun , sem var um 40% af starfsfólki félagsins.

Þær uppsagnir, en líklega ekki þessar nú hjá Gray Line, höfðu borist Vinnumálastofnun þegar Vísir greindi frá því fyrr í dag að stofnuninni hefði borist átta tilkynningar um hópuppsagnir frá því í gær, þar sem samtals 265 manns misstu vinnuna.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um í gær kynntu stjórnvöld bæði framlengingu hlutabótaleiðarinnar fyrir þá starfsmenn sem yrðu áfram við störf en einnig að fyrir fyrirtæki sem sæju fram á 75% tekjuskerðingu tæki ríkissjóður þátt í kostnaði við laun fólks á uppsagnarfresti.

Samdægurs bárust fréttir af því að Icelandair hefði sagt upp yfir 2.000 manns , þar af nærri helmingurinn flugfreyjur , en þær 41 sem enn starfa hjá félaginu eru allar með yfir 30 ára starfsreynslu eða njóta sérstakar verndar vegna trúnaðarstarfa.

Jafnframt hafa Íslandshótel sagt að þau geri ráð fyrir að 230 af 530 starfsmönnum þeirra verði sagt upp, auk þess sem Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að Isavia hefði sagt upp 30 starfsmönnum Fríhafnarinnar.