Gray Line á Íslandi og kínverski rafbílaframleiðandinn BYD undirrituðu í gær samkomulag um þróun á rafdrifnum rútum sem henta íslenskum aðstæðum. Gray Line horfir ekki síst til rafknúins aksturs á leiðinni milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gray Line.

Hafa lengi leitað

Gray Line á Íslandi hefur í langan tíma kannað markað rafdrifinna hópferðabíla, en hefur ekki fundið farartæki sem hefur hentað íslenskum aðstæðum fyrr en nú.

Haft er eftir Þóri Garðarssyni, stjórnarformanni og viðskiptaþróunarstjóra Gray Line á Íslandi, að leit Gray Line á Íslandi hafi endað hjá kínverska bílaframleiðandanum BYD, en að hans sögn hafa Kínverjar náð mjög langt í þróun á rafdrifnum bílum og BYD skarar þar fram úr að mati fyrirtækisins.

Framarlega á merinni hvað varðar drægni

„Sérstaklega hefur BYD náð langt við að auka drægi rafhleðslunnar. Forráðamenn BYD sýndu strax mikinn áhuga á samstarfi við okkur þrátt fyrir smæð íslenska markaðarins og komu hingað til að skrifa undir samkomulag um þróun á rafdrifnum hópferðabíl sem uppfyllir þarfir okkar,“ er haft eftir Þóri í tilkynningu Gray Line.

Miðla upplýsingum um kröfur íslenska markaðarins

„Samningurinn snýst um að Gray Line miðli upplýsingum um kröfur íslenska markaðarins til BYD og vinni með kínverska fyrirtækinu að þróun á rafdrifnum hópferðabíl sem uppfyllir þær. Markmið Gray Line á Íslandi er að áætlunarferðum fyrirtækisins milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar verði alfarið sinnt með rafdrifnum rútum.

Í samningnum er einnig ákvæði um markaðssetningu á rafdrifnum fólksbílum frá BYD fyrir bilaleigumarkaðinn. Þar er horft til bíla eins og BYD e6 sem er með mjög langdræga hleðslu og hentar því vel fyrir ferðamenn hvort sem um er að ræða ferðir út frá höfuðborgarsvæðinu eða hringinn í kringum landið,“ segir að lokum í tilkynningu Gray Line.