Sir Philip Green á nú í viðræðum um að fjárfesta í Baugi fyrir allt að 2 milljarða punda.

Green kom til Reykjavíkur í gær ásamt Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og þeir héldu til samningaviðræðna á Hótel 101.

Financial Times (FT) greinir frá þessu.

FT hefur eftir Green að til greina komi að hann kaupi upp allar skuldir sem Baugur átti í íslensku bönkunum, en þær eru taldar vera á bilinu 1-2 milljarðar punda. Baugsmenn leggja áherslu á að Baugur sé ekki allur til sölu.

Eigendur Baugs reyna nú að forðast hrun fyrirtækisins eftir að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hótaði að taka yfir eigur íslenskra fyrirtækja í Bretlandi til að greiða breskum innistæðueigendum það sem íslenskir bankar skulda þeim.

Green er í þeirri stöðu að geta keypt hluti í fyrirtækjum án lánsfjármögnunar, eftir að hafa tekið út 1,2 milljarða punda arð árið 2005, úr félagi sínu BHS.