Skiptum á Grundum ehf., félaginu á bak við bílaleiguna Green Motion Iceland, lauk þann 21. júní síðastliðinn. Lýstar kröfur námu 898 milljónum króna en engar eignir fundust í búinu, að því er kemur fram í Lögbirtingarblaðinu. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta þann 10. júní á síðasta ári eftir úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness. Grundir nýtti sér hlutabótaleiðina á síðasta ári.

Félagið skilaði síðast inn ársreikningi, þá undir nafninu Green Motion Iceland ehf., fyrir árið 2018 en það árið skilaði félagið 7,8 milljóna króna hagnaði en tapaði 117 milljónum árið 2017. Eigið fé í árslok 2018 var neikvætt um 89 milljónir og skuldir námu 1,4 milljörðum króna.

Stærsti kröfuhafi Grunda ehf. var Landsbankinn sem átti ökutæki félagsins. Bankinn rifti samningum við félagið og leysti til sín ökutækin fyrir úrskurðardag og við það komu rúmlega 330 milljónir króna til lækkunar á kröfum bankans.

Grundir ehf. voru í eigu Rúnars Laufars Ólafssonar og Bjarnýjar Bjargar Arnórsdóttur.