Í fyrra losnaði um töluvert fjármagn þegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins seldi hlut sinn í Greenqloud og Völku. „Salan á Greenqloud var stærsta sala sjóðsins frá upphafi en fyrirtækið var selt til NetApp í Bandaríkjunum. Það var algjörlega frábært ferli og ég hvet alla í þessum geira til að kynna sér þetta ferli því það er mjög áhugavert – allt frá stofnun til sölu. Þetta er eiginlega kennslubókardæmi,“ segir Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins. Huld var viðmælandi VIðskiptablaðsins í síðustu viku. Fyrri hluta viðtalsins má nálgast hér en viðtalið í heild í blaðinu sjálfu.

„Þetta er gott dæmi því það gekk upp en þarna voru réttar ákvarðanir teknar á réttum tíma, þetta er dæmi um þrautseigju. Þrautseigjan þar er kannski fyrst og fremst hjá fjárfestinum sem fór fyrst inn, sem var ekki Nýsköpunarsjóðurinn heldur Kjölur. Þetta er líka mjög gott dæmi um samstarf fjárfesta. Þegar við komum inn var samstarfið við Kjöl mjög gott. Það er mjög mikilvægt í þessu umhverfi, að eiga gott samstaf við þá sem eru í kringum þig.“

Talandi um, er mikið samstarf milli fjárfestingasjóðanna?

„Já, mjög mikið. Við erum auðvitað saman í mörgum félögum. Sumir koma inn fyrr en aðrir en í flestum félögunum er það þannig að Nýsköpunarsjóður fjárfestir fyrst. Fyrir vikið skapar þetta mikið samstarf sem er alveg sérstaklega gott. Mér finnst það gagnlegt því við hjálpum hvert öðru mjög mikið og deilum reynslu og þekkingu. Menn eru mjög opinskáir og heiðarlegir í þessu.“

Þið lítið þá kannski svo á að þið keppið að sameiginlegu markmiði?

„Já, algjörlega. Það er ekki mín upplifun að við séum í samkeppni hvert við annað heldur að hjálpa hverju öðru og hjálpum þannig sprotafyrirtækjunum á Íslandi og atvinnulífinu. Það er sameiginlegt markmið.“

Nýsköpun dálítið tískuorð

Orðið „nýsköpun“ kemur átján sinnum fyrir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þekkingardrifin verðmætasköpun virðist því eiga að vera fjöregg þjóðarinnar til framtíðar. Þrátt fyrir það virðist innihald hugtaksins óljóst og ramminn utan um nýsköpun á Íslandi ógreinilegur.

„Ég held að það sé tvennt í þessu. Annars vegar er nýsköpun dálítið tískuorð núna og fólk notar það svolítið til að slá um sig. Þó svo að það sé tískuorð í dag þýðir það ekki að það hafi ekki verið bullandi nýsköpun fyrir fimm eða tíu árum. Eftir hrunið var til dæmis mjög mikil nýsköpun í gangi. Össur og Marel hafa auk þess stundað nýsköpun alla tíð. Mörg sjávarútvegsfyrirtæki, sérstaklega þessi stærri, hafa verið í mikilli nýsköpun. Hinn parturinn er kannski að það er mjög gott að vekja meiri athygli á þessu. Það eru miklar breytingar í atvinnulífinu og á efnahag þjóða að gerast og í vændum. Við verðum að vera tilbúin fyrir þær. Við megum ekki halda að nýsköpun sé bara fólgin í ákveðnum atvinnugreinum eða ákveðnum geirum. Nýsköpun er allt í kringum okkur. Mér fannst mjög áhugavert að verðlaunin fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu, svo voru veitt nýlega, fóru til hóps sem rekur lyfjaumsjónarkerfi í öldrunarþjónustu.“

Verkefni hópsins er samvinnuverkefni Öldrunarheimila Akureyrar, Akureyrarkaupstaðar, Lyfjavers og Þulu, en Garðar Már Birgisson, viðskiptastjóri Þulu, var tekinn tali í Viðskiptablaðinu í mars. „Það er sjaldgæft að fólk setji nýsköpun í samhengi við umönnun aldraðra og hjúkrunarheimili. En auðvitað er nýsköpun alls staðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .