Bandaríska athafnakonan Kelly Ireland hefur gengið til liðs við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Greenqloud sem nýr fjárfestir. Fjárfesting hennar nemur fjórum milljónum Bandaríkjadala, eða um 475 milljónum króna, og tekur hún jafnframt sæti í stjórn félagsins. Þar verður hún í hópi með stjórnarformanninum Guðmundi Inga Jónssyni, Birgi Má Ragnarssyni, Þorláki Traustasyni og Agli Mássyni. Aðaleigendur Greenqloud ásamt Ireland eru Kjölur, Nýsköpunarsjóður Íslands, Novator, smærri fjárfestar, stofnendur og starfsfólk.

Kelly Ireland hefur áratuga reynslu úr upplýsingatæknigeiranum og er þekktust fyrir að hafa stofnað hugbúnaðarfyrirtækið CB Technologies árið 2001. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og var t.a.m. nefnd sem ein af 100 áhrifamestu stjórnendunum ársins 2015 í nýsköpun af CRN tímaritinu. Að sögn Jóns Þorgríms Stefánssonar, forstjóra Greenqloud, er því um mikinn hvalreka að ræða fyrir fyrirtækið.

Vildu meira en bara pening

„Þetta er ómetanlegt fyrir okkur. Við höfum verið að sækja á Ameríkumarkað og að fá inn svona sterka manneskju sem rekið hefur mjög farsælt og flott hugbúnaðarfyrirtæki er stórkostlegt fyrir okkur. Við erum í ákveðinni frumkvöðlastarfsemi og hún hefur reynslu af því að stofna og reka fyrirtæki á þessum markaði sem við erum á,“ segir Jón.

Hann segir að markmiðið hafi alltaf verið að fá inn nýjan eiganda sem kæmi ekki einungis með fjármagn heldur einnig þekkingu inn í reksturinn. „Við fundum fyrir töluverðum áhuga frá fleiri aðilum en það hefur alltaf verið stefnan hjá okkur að fá meðeiganda sem kemur með meira verðmæti heldur en bara pening að félaginu. Hún kemur inn með þekkingu á markaðnum og sínar tengingar og það er strax farið að skila sér.“

Vinna að stórum verkefnum Greenqloud hefur verið í örum vexti frá því að félagið hætti rekstri hýsingarþjónustu og setti allt sitt afl í þróun hugbúnaðarins Qstack, sem gerir fyrirtækjum kleift að að setja upp sitt eigið skýjaumhverfi og stýra miðlægum tölvukerfum, samhliða hagræðinguí rekstri þeirra. Leiðandi fyrirtæki á heimsvísu hafa tekið upp notkun hugbúnaðarins, allt frá fjármálageiranum yfir í heilbrigðisgeirann.

Greenqloud er í samstarfi við stórfyrirtæki á borð við Microsoft, VMware, Hewlett Packard og Hitachi. „Það eru gríðarlegir möguleikar fram á við og við erum að vinna að mjög stórum verkefnum. Við erum með mjög flotta samstarfsaðila sem við erum að vinna frekar náið með, sem mér finnst vera gríðarlega merkilegur áfangi. Við lukum í raun viðsnúningi félagsins í apríl á síðasta ári, þannig að vera komin með þessa viðskiptavini er í rauninni framar mínum vonum á sínum tíma,“ segir Jón Þorgrímur, en hann tók við starfi forstjóra í mars 2014 eftir að hafa áður setið í stjórn félagsins.

Sanna sig fyrir stórfyrirtækjunum

Eftir að Greenqloud breytti um stefnu og fór að einblína á fyrirtækjalausnir hafa mörg stórfyrirtæki byrjað að nýta sér QStack-þjónustuna. Jón Þorgrímur segir að í mörgum tilfellum fái fyrirtækin að prófa hugbúnaðinn með litlum tilkostnaði til að sannreyna hann. „Við höfum verið í prufuferli (e.proof of concept) með mjög stórum fyrirtækjum í mjög langan tíma, sem skilar litlum tekjum en þjónar einungis þeim tilgangi að sannreyna vöruna okkar. Þetta hefur í öllum tilfellum endað með því að hafin hefur verið innleiðing hjá fyrirtækjunum og nú erum við að ljúka nokkrum slíkum prufuferlum. Það er alltaf áskorun að ráðast í algera stefnubreytingu á fyrirtæki og þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Jón. Sem dæmi um öran vöxt fyrirtækisins hefur starfsmönnum fjölgað úr 14 í 49 frá því að hann tók við.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 11. ágúst 2016.