GreenQloud réð til starfa nýjan forstjóra í apríl og hefur síðan þá ráðið til baka tvo lykilstarfsmenn sem munu starfa við hugbúnaðarþróun og tæknirekstur auk þess að bæta við starfsmönnum í nýjar stöður innan allra deilda fyrirtækins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá GreenQloud.

Samhliða vexti félagsins á alþjóðavísu þá hefur fyrirtækið ávallt augun opin fyrir hæfileikaríku fólki bæði hér á Íslandi og erlendis. GreenQloud hefur ráðið til sín gríðarlega hæfileikaríkt fólk og keppir nú við mun stærri tæknifyrirtæki, bæði hér heima og erlendis, um starfsfólk.

„Á þeim tveimur mánuðum sem ég hef verið framkvæmdastjóri hjá GreenQloud hefur teymið tekið við mjög mikilli aukningu á eftirspurn á skýjalausnum, bæði svokölluðum “Private Clouds” og “Public Cloud”, sjálfsafgreiðslu skýjaþjónustu GreenQloud. Við erum að gera mjög spennandi hluti og það hefur laðað að hæfileikaríkt fólk sem hefur stigið inní lykilhlutverk í GreenQloud teyminu,“ segir Jón Þorgrímur Stefánsson, framkvæmdastjóri GreenQloud

Eftirtaldir starfsmenn hófu nýlega störf hjá GreenQloud:

Soffía Tryggvadóttir er ráðin til starfa sem forstöðumaður viðskiptaþróunar. Soffía mun m.a. sjá um öll samningamál GreenQloud, samskipti samstarfsaðila og viðskiptavini, stýringu viðskiptaferla og -þróunar. Soffía starfaði áður við sérverkefni hjá Hönnunarmiðstöð Íslands og við verkefnastýringu útboða og rammasamninga hjá Ríkiskaupum. Soffía er með M.Sc. gráðu í stjórnun og stefnumótun og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Kristinn Soffanías Rúnarsson (Soffi) snýr aftur til GreenQloud sem forstöðumaður tæknireksturs. Soffi kemur frá Reiknistofu Bankanna þar sem hann var fyrirliði kerfisþjónustu en hann býr yfir áralangri reynslu af kerfisrekstri með áherslu á netkerfi, gagnageymslur og miklar áreiðanleikakröfur.

Ragnar Brjánn Jóhannsson snýr einnig aftur til starfa hjá GreenQloud sem hugbúnaðarsérfræðingur á sviði grunnakerfa og innviða. Hann starfaði áður hjá Videntifier við þróun myndgreiningar- og gagnagrunnskerfa til notkunar við löggæslu á alþjóðavísu, en hann var einn af fyrstu starfsmönnum GreenQloud og hefur því mikla þekkingu á öllum tæknilegum innviðum fyrirtækisins svo sem kerfisþróun, öryggi, netkerfum og sýndarvæðingu og mun beita kröftum sínum á þeim vettvangi innan GreenQloud.

Jón Arnar Guðmundsson hefur verið ráðinn sem hugbúnaðarsérfræðingur. Hann mun starfa við þróun og hönnun á innri kerfum GreenQloud. Jón starfaði áður í sex ár hjá Mönnum og Músum við þróun á DNS, DHCP og IPAM hugbúnaði. Fyrir það starfaði Jón hjá Marel við þróun á sérlausnum fyrir stóra viðskiptavini í fisk- og alifuglaiðnaði. Jón er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Nera Nesic kemur til starfa í hugbúnaðarteymið og mun einbeita sér að grunnkerfum fyrirtækisins. Nera kom til GreenQloud í gegnum frumkvæðið Konur í Tækni og var hún upphaflega ráðin í hlutastarf með skóla á meðan hún vann að Meistaranámi sínu í Háskólanum í Reykjavík. Nera er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði.

Gergely Fazekas (Greg) kom til GreenQloud sem starfsnemi í febrúar og sannaði sig fljótt með því að fjórfalda virkni á samfélagsmiðlum og hefur aukið vitund alþjóðlegra fyrirtækja um GreenQloud. Greg hefur nú gengið til liðs við markaðs- og söluteymið til að einblína á sjálfsafgreiðslu skýjaþjónustu GreenQloud.

Nicola Storgaard hefur gengið til liðs við markaðsdeildina til að vinna að alþjóðamarkaðsstefnu GreenQloud og auka sýnileika á alþjóðamarkaði innan skýjalausna. Nicola var starfsnemi snemma árs 2013 og er nú komin aftur til GreenQloud við útskrift úr meistaranámi í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík. GreenQloud hefur einnig aukið við starfsfólk á starfsstöðvum félagsins erlendis, en GreenQloud teymið í Brasilíu hefur stækkað nokkuð uppá síðkastið til að styrkja tækniþjónustu félagsins og söluteymi í Suður Ameríku.