Afskipti bandarískra stjórnvalda er ástæða þess að efnahagur landsins hefur ekki náð sér á strik, segir Alan Greenspan fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Greenspan telur að rétt leið að bættum efnahag sé sú að draga úr afskiptum ríkisins.

Bandarísk stjórnvöld hafa reynt að örva efnahag landsins meðal annars með kaupum á ríkisskuldabréfum á markaði. Kaupunum er gert að auka lausafé og örva þannig efnahag. Ben Bernanke, núverandi seðlabankastjóri, hefur varið aðgerðir bankans sem hafa verið gagnrýndar.

Á vefsíðu CNN er haft eftir Greenspan að nú þurfi allir að anda rólega og leyfa hlutunum að hreyfa sig sjálfir.

Í frétt CNN er rifjuð upp gagnrýni á störf Greenspans, en hann gegndi starfi seðlabankastjóra á árunum 1987-2006. Ýmsir hagfræðingar telja að Greenspan hafi haldið stýrivöxtum of lágum í of langan tíma og hafi því ekki brugðist við ofhitnun í efnahagi landsins.