Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, viðurkenndi fyrir Bandaríkjaþingi í dag að hann væri „forviða” yfir því hvernig fjármálamarkaðir hafa hrunið og að hann hafi gerð „hálfgerð” mistök með andstöðu sinni við stífari regluverki varðandi suma fjármálagerninga.

Hann segist þó ekki bera persónulega ábyrgð á því sem hann kallar „fárviðri á fjármálamarkaði sem á sér stað aðeins einu sinni á öld.”

Hann sagði ennfremur að sú stoð í grunnhugsun hans um að útlánastofnunum sjálfum sé best treystandi til þess að gæta hagsmuni hluthafa hafi hrunið.

Alan Greenspan bar vitni fyrir stjórnsýslunefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings í gær en nefndin skoðar nú hverjar rætur núverandi fjármálakreppu kunna að vera.

Sumir sérfræðingar telja að Greenspan beri nokkra sök á stöðu mála þar sem að hann hafi gert þau reginmistök að viðhalda stýrivöxtum of lágum of lengi lungað af tímanum sem hann sat í stól seðlabankastjóra á þessari öld.

_______________________________________

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .