Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur svarað þeim gagnrýnendum sem segja að undir hans forystu hafi peningastefna bankans valdið eignabólu á fasteignamarkaði með því að halda stýrivöxtum of lágum í of langan tíma.

Í grein sem Greenspan skrifar á vef Financial Times bendir hann á að fátt renni stoðum undir þá hagfræðikenningu að það séu einhver tengsl á milli eignabólu og peningamálastefnu.

Greenspan segir að það valdi honum töluverðum „heilabrotum" hvers vegna svo margir fjármálaskýrendur reyni að skýra eignabólu á bandarískum fasteignamarkaði með því að vísa til aðgerða seðlabankans -- sérstaklega í ljósi þess að í mörgum öðrum hagkerfum hefur fasteignaverð hækkað mikið þrátt fyrir að þar séu aðrir seðlabankar sem hafi fylgt annarri peningastefnu.

Fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna telur að orsökin fyrir hækkunum á fasteignaverði hafi alþjóðlega vídd: Verðhækkanir hafi verið knúnar áfram af lágum raunvöxtum sem hafi orsakast af miklum sparnaði nýmarkaðshagkerfa á borð við Kína.

Hann vísar einnig á bug þeirri gagnýni að kenna megi ónægu regluverki seðlabankans um að slakað hafi verið á útlánaskilyrðum vegna fasteignakaupa. „Vandamálið," heldur Greenspan fram, „er ekki skortur á reglusetningu, heldur fremur óraunsæjar væntingar um hvað löggjafinn geti komið í veg fyrir."