Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri í Bandaríkjunum, segir að það æskilegast að markaðurinn komi Lehman Brothers úr þeim vandamálum sem hrjá fjárfestingabankann. Best væri ef hið opinbera héldi sig fjarri að þessu sinni, að mati Greenspan. Bloomberg greinir frá þessu í kvöld.

„Ef slíkt er mögulegt, væri það besta lausnin,” sagði Greenspan spurður um hvort hið opinbera ætti að þrýsta á einkaaðila að leysa vanda Lehman. Greenspan neitaði þó að spá fyrir um hverjar líkurnar væru á því að þetta myndi gerast.

Til eru fordæmi fyrir því að hið opinbera – peningamálayfirvöld og fjármálaráðuneyti, leiði lausn mála sem þessara án þess að skattborgarar þurfi að borga brúsann. Árið 1998 leiddi Seðlabanki Bandaríkjanna lausn mála þegar vogunarsjóðnum Long Term Capital Management var bjargað af hópi fjármálastofnana.