Greenstone ehf. hefur undirritað samning við bandarískt stórfyrirtæki um uppbyggingu gagnavera á Íslandi, að því er segir í tilkynningu frá Greenstone. Þar kemur fram að Greenstone sé í eigu Íslendinga, Hollendinga og Bandaríkjamanna og að áform séu uppi um að framkvæmdir geti hafist á þessu ári og að fyrsta gagnaverið verði komið í notkun í janúar 2011.

Í tilkynningunni segir að fjárfestingin geti numið allt að 200 milljörðum króna og krefjist um 300 MW orku. Hún geti skapað allt að 300 ný bein störf á næstu árum auk fjölda afleiddra starfa. Forsenda sé lagning ljósleiðara frá Bandaríkjunum til Íslands en Greenstone sé í samvinnu við bandaríska fjárfesta í því efni. Samið verði við Farice um gagnatengingu frá Íslandi til Evrópu og unnið sé að undirbúningi samninga um raforku og raforkuflutninga.