Félagið Greenwater ehf., sem á meðal annars verslanirnar Betra Bak, Dorma og Húsgagnahöllina, hagnaðist um 61,5 milljónir á rekstrartímabilinu 1. mars til 2019 til 29. febrúar 2020. Það er ágætis viðsnúningur frá rekstrartímabilinu á undan þegar að tap af rekstri var 110 milljónir. Þetta kemur fram í rekstrarreikningi félagsins.

Rekstrarreikningur félagsins nær ekki yfir heimsfaraldurinn en áhrif faraldursins var takmarkaður á Íslandi þar til í mars á síðasta ári. Þó að engar tölur séu gefnar upp er minnst á mikinn á tekjuvöxt dótturfélaga Greenwater í faraldrinum. Þá er einnig sagt að fjárhagsstaða félagsins sé sterk og að fjármögnun sé tryggð til nokkurs tíma.

Velta félagsins var 2,96 milljarðar fyrir tímabilið úr 2,83 milljörðum tímabilið á undan. Eignir félagsins nema 1,51 milljarði og eigið fé þess er 397 milljónir og nemur eiginfjárhlutfall félagsins því um 26,3%. Birgðir félagsins eru stærsta eign þess en þær voru bókfærðar á um 844 milljónir. Þá námu laun og launatengd gjöld um 599 milljónum.