Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði (SART) er gert að greiða 4 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brota á samkeppnislögum. Samtökin viðurkenna brot á lögum og grípa til ráðstafana sem ætlað er að tryggja að samkeppni verði ekki raskað á vetvangi þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Sniðgengu fyrirtæki

Rannsókn á starfsemi SART hófst eftir að Samkeppniseftirlitinu barst kvörtun frá fyrirtæki í lok síðasta árs. Rafverktökum í SART hafði þá verið meinað að eiga viðskipti við fyrirtækið þar sem ágreiningur var á milli hans og rafverktaka innan samtakanna. Ágreiningur var vegna uppgjörs á verksamningi þeirra á milli.

SART sendi tilkynningar til rafverktaka innan samtakanna um að sniðganga fyrirtæki sem áttu í viðskiptalegum ágreiningi við félagsmenn SART. Þetta hafði félagið gert gegn að minnsta kosti þremur öðrum félögum en því sem kvartaði.

Viðurkenna brot

Samtökin viðurkenna að hafa brotið samkeppnislög með útgáfu og beitingu þessara samskiptareglna. „Slíkar samstilltar aðgerðir keppinauta og samtaka fyrirtækja um að sniðganga einn eða fleiri viðskiptavini eða keppinauta eru til þess fallnar að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Fleiri greinar samskiptareglnanna fólu í sér nána upplýsingamiðlun og samvinnu milli rafverktaka um viðkvæm viðskiptaleg atriði og brutu því í bága við samkeppnislög,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.

SART óskuðu eftir sáttum í málinu á meðan málsmeðferð stóð yfir. Þau hyggðust afnema hin umdeildu ákvæði úr samskiptareglum sínum og afturkalla tilkynningar til rafverktaka um verkbönn.

Sátt náðist um niðurstöðu málsins og byggir Samkeppniseftirlitið á henni. SART viðurkenna brot og greiða jafnframt 4 milljónir króna í stjórnvaldssekt.