Þeir Danir sem ferðast hingað til lands og hyggjast nota greiðslukort þurfa að greiða sérstök gjöld þess vegna. Børsen greinir frá þessu.

Kortafyrirtæki beita mismunandi aðferðum til að umreikna úr íslenskum krónum yfir í aðra gjaldmiðla, en orsök þess er sögð gjaldeyriskrísan á Íslandi, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökum fjármálafyrirtækja í Danmörku.

„Korthafar, sem greiða með kortum útgefnum í Danmörku á Íslandi, munu framvegis þurfa borga samkvæmt opinberu gengi Visa og Mastercard, sem miða sig við gengi Seðlabanka Íslands,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Vegna þess að gengisreikningar eru miðaðir við uppgefið gengi Seðlabanka Íslands þurfa danskir kortanotendur að greiða aukagjald. Þó er það mismunandi hátt eftir kortafyrirtækjum.

Vanalega miða dönsk kortafyrirtæki við gengi íslensku krónunnar samkvæmt Nationalbanken, seðlabanka Danmerkur. Nationalbanken á hins vegar ekki í viðskiptum með krónuna og því er notast við áðurnefnd viðmið.