Ríkið greiðir 1,2 milljarða króna í leigu fyrir afnot af Perlunni undir Náttúruminjasafn Íslands. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að leigan nemur um 80 milljónum króna á hverju ári og nær samningurinn til 15 ára. Hann er óuppsegjanlegur. Í blaðinu er rifjað upp að Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt samninginn og sagt leiguna of háa.

Þá er í blaðinu haft eftir Georg Bergþóri Friðrikssyni, flokkunarfræðingi og fyrrverandi starfsmanni Náttúruminjasafnsins, að Perlan sé ekki viðunandi staður fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Hann segir í samtali við Morgunblaðið hlutverk safna vera fyrst og fremst að safna munum og síðan að varðveita þá. Sýningar komi á eftir söfnunar- og varðveiðsluhlutverkinu. Eigi Perlan að geta sinnt hlutverki sínu þurfi að vera til staðar gripasafn. Í Perlunni sé engin slík aðstaða og engar áætlanir eða plön verið gerð um að byggja upp gripasafn við Perluna eða innan hennar.