Svissneski bankinn UBS hefur samþykkt að greiða 120 milljóna dala bætur til að forðast málsókn af hálfu fjárfesta. Bæturnar nema rúmum 14 milljörðum íslenskra króna.

Fjárfestarnir sökuðu bankann um að veita villandi upplýsingar um fjárhagsstöðu Lehman Brothers bankans í tengslum við sölu á skuldabréfum í síðarnefnda bankanum. Samkomulagið var birt í pappírum sem lagðir voru fram í dómstól á Manhattan í gær. Dómstóllinn þarf að samþykkja samkomulagið.

UBS bankinn seldi skuldabréf í Lehman á tímabilinu mars 2007 til september 2008, samkvæmt skjölunum sem voru lögð fram í dómnum. Lehman bankinn óskaði eftir greiðslustöðvun þann 15. September 2008. Það atvik hafði gríðarleg áhrif á hagkerfi alls heimsins og var til dæmis undanfarinn að því að íslenska ríkið tók yfir 75% hlut í Glitni.

Reuters greindi frá.