Innheimtar tekjur ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins námu rúmum 443 milljörðum króna sem er 15,8% aukning frá sama tímabili í fyrra þegar þær námu 383 milljörðum. Innheimtar tekjur eru 10% yfir tekjuáætlun fjárlaga. Þetta kemur fram í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs á vef fjármálaráðuneytisins.

Greidd gjöld námu 434 milljörðum fyrstu níu mánuðina jukust um 21,6 milljarða eða 5,2% milli ára. Í lok september námu afborganir lána tæpum 140 milljörðum króna og voru 110 milljarðar vegna erlendra lána. Fjármagnskostnaður ríkisins á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 55,7 milljörðum króna.

Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 17,7 milljarða, en var neikvætt um 22 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Stærsti einstaki útgjaldaliðurinn er vegna almannatrygginga og velferðarmála. Útgjöld vegna þeirra námu 102,3 milljörðum fyrstu níu mánuðina og jukust um 2,7 milljarða milli ára sem er minna en gert hafði verið ráð fyrir.

Næst stærsti útgjaldaliðurinn er vegna heilbrigðismála. Í uppgjörinu kemur fram að útgjöld til þeirra hafi numið 101,9 milljarði króna og því aukist um 7,4 milljarða milli ára,  sem sé jafnframt rúmum 4 milljörðum umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir.

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs gefur upplýsingar um afkomu ríkissjóðs á grundvelli innheimtra tekna og greiddra gjalda. Nokkur munur er á greiðsluuppgjöri annars vegar og uppgjöri á rekstrargrunni eins og ríkisreikningur er gerður eftir hins vegar. Hann felst einkum í því að í greiðsluuppgjöri er ekki tekið tillit til ýmissa fjárskuldbindinga og krafna sem áfallnar eru á árinu bæði á tekju- og gjaldahlið sem hafa ekki haft áhrif á greiðslur úr ríkissjóði.

Nánari upplýsingar um greiðsluuppgjörið má finna hér .