Áætlað er að SjúkratryggingarÍslands greiði 1.861 milljón króna á þessu ári vegna brýnnar sjúkrameðferðar einstaklinga í löndum utan Íslands. Þetta er 195 milljónum krónum meira en í fyrra og rúmum 360 milljónum krónum meira en árið 2012. Ætla má að kostnaðurinn hafi aukist að meðaltali um 4,4% á ári eftir hrun. Talsverður munur er á kostnaði Sjúkratrygginga vegna þessa fyrir og eftir hrun en aukinn kostnaður helst í hendur við gengisfall krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Gangi áætlanir eftir mun kostnaðurinn á þessu ári verða 175% meiri en árið 2007. Inni í kostnaðartölunni er brýn sjúkdómsmeðferð einstaklinga utan Íslands og ferðakostnaður bæði viðkomandi sjúklings og í sumum tilvikum þess sem fylgir viðkomandi í ferðina utan. Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga, segir stærstan hluta kostnaðarins tengdan aðgerðum sem sjúklingar eru sendir í við þau sjúkrahús í Skandinavíu sem Sjúkratryggingar hafa gert samninga við, svo sem í Svíþjóð. Þar eru jafnframt framkvæmdar dýrustu aðgerðirnar, líffæraflutningar og álíka aðgerðir. Sjúklingar hafa farið í minni aðgerðir í Bretlandi og fleiri löndum þar sem aðra sérhæfingu er að finna. Dýrustu aðgerðirnar eru hjartaígræðslur en kostnaður við eina slíka aðgerð getur numið í kringum 30 milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .