Eigendur flugfélagsins Bláfugls fá greidda út um 1,9 milljarða króna eftir sölu félagsins fyrr á þessu ári. Kaupandi Bláfugls var litháíska félagið Avia Solutions Group (ASG) en tilkynnt var um söluna í janúar og gengið var frá öllum fyrirvörum í lok mars.

Í millitíðinni skall kórónuveirufaraldurinn á sem hefur haft mikil áhrif á flugfélög um heim allan. „Þegar kaupin voru undirrituð var augljóslega annað viðskiptaumhverfi en við búum við í dag,“ var haft eftir Sigurði Erni Ágústssyni, nýjum stjórnarformanni Bláfugls, þegar fyrirvörum hafði verið aflétt.

Kaupverðið var 5,8 milljónir dollara, jafnvirði um 800 milljóna króna samkvæmt uppgjöri ASG. Því til viðbótar var megnið af lausafé samstæðu Bláfugls greitt út í arð til BB Holding ehf., fyrri eigenda Bláfugls, en arðgreiðslan nam 9,9 milljónum dollara, jafnvirði um 1,4 milljarða króna.

Lausaféð sem greitt var út til BB Holding var að nokkru til komið eftir sölu tveggja Boeing 737-300 flugvéla Bláfugls í september á síðasta ári. Til stóð að kaupa nýjar flugvélar í stað þeirra en vinnunni var ekki lokið þegar ASG keypti félagið.

Steinar Logi Björnsson, sem var forstjóri Bláfugls, á 50% hlut í BB Holding en hin 50% eru í eigu sömu aðila og eiga flugfélagið Air Atlanta. Steinn Logi er fyrrverandi forstjóri Skipta, þá móðurfélags Símans og Húsasmiðjunnar, auk þess sem hann starfaði í 20 ár innan samstæðu Icelandair. Hannes Hilmarsson, stjórnarformaður Air Atlanta, á 25% í BB Holding, Geir Valur Ágústsson, fjármálastjóri Atlanta, á 15% hlut og þá eiga Stefán Eyjólfsson og Helgi Hilmarsson 5% hvor um sig en þeir eru báðir framkvæmdastjórar hjá Atlanta. Hópurinn keypti Bláfugl af Íslandsbanka árið 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .