Bresk-ástralska námafyrirtækið Rio Tinto hefur náð samkomulagi við ástralska frumbyggja um greiðslu nær 2 milljarða dala fyrir afnot og úrvinnslurétt til fjörutíu ára, á landi frumbyggjanna í vesturhluta Ástralíu. BBC greinir frá þessu og segir Rio Tinto hafa leitast eftir því um nokkurt skeið að auka járngrýtisframleiðslu sína í Ástralíu um 5% en fyrirtækið er næst stærsti járngrýtisframleiðandi heims.

Um er að ræða 70 þúsund ferkílómetra landssvæði, til samanburðar er Ísland 103 þúsund ferkílómetrar, sem mun vera mjög ríkt að auðlindum. Hluti af samkomulaginu, sem er gert við fimm mismunandi frumbyggjaráð, er að 14% starfsmanna á svæðinu verði frumbyggjar og 14% af öllum viðskiptum vegna úrvinnslunnar verði við fyrirtæki í eigu frumbyggja.