Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í dag hefur Héraðsdómur Reykjavíkur staðfest nauðasamning LBI . Vikufrestur til að áfrýja samþykki héraðsdóms til Hæstaréttar rennur út á jóladag.

Að þeim fresti liðnum er gert ráð fyrir að slitabúið greiði stöðugleikaframlög til stjórnvalda, annað hvort fyrir eða eftir áramót, samkvæmt upplýsingum frá LBI. Í fyrri hluta janúar gerir LBI síðan ráð fyrir að greiða forgangskröfuhöfum um það bil 210 milljarða króna, að fengnu samþykki Seðlabanka Íslands á undanþágubeiðni frá fjármagnshöftum. Almennar kröfur verða ekki greiddar fyrr en seinna.

Að því er fram kom í kynningu stjórnvalda í október nema stöðugleikaframlög LBI um 20 milljarða króna miðað við bókfært virði þeirra eigna sem framseldar eru til ríkisins. Þá eru skattar og endurheimtur Eignasafns Seðlabanka Íslands enn ótalin, en þar er um að ræða samtals 22 milljarða króna.