Vaxtamunur milli Íslands og viðskiptalandanna er 4% á lánum til skamms tíma og 6% á lánum til langs tíma. Vaxtamunur á milli Íslands og helstu viðskiptalanda er því meiri en svarar til munar á verðbólgu og raunvextir eru þannig mun hærri hér á landi. Þetta þýðir að greiðslubyrði lána er umtalsvert meiri hér en í viðskiptalöndunum.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslunni „Í aðdraganda kjarasamninga: Efnahagsumhverfi og launaþróun".  Skýrslan er samvinnuverkefni ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, SA, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármála og efnahagsráðuneytisins.

Samkvæmt fjármálareikningum Hagstofu Íslands námu skuldir íslenskra fyrirtækja, annarra en fjármálafyrirtækja, um 1.905 milljörðum króna í árslok 2013. Ef miðað er við að meðalvaxtamunurinn sé 5% þá nema umfram vaxtagreiðslur íslenskra fyrirtækja 95 milljörðum króna á ári.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir það ekkert nýtt að vaxtamunurinn sé af þessari stærðargráðu.

„Skýringin á háum vöxtum hér er gjaldmiðilinn og sá óstöðugleiki sem verið hefur í efnahagslífinu, hvort sem gjaldmiðillinn er orsök eða afleiðing – hann er líklega hvort tveggja," segir Hannes. „Þessi mikli vaxtamunur heldur niðri samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og kemur í veg fyrir ýmsar fjárfestingar, sem væru arðbærar miðað við lægra vaxtastig og heldur þannig aftur af vexti og lífskjörum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .