Í aðdraganda afskráningar Heimavalla úr kauphöllinni munu tveir sjóðir í stýringu Eaton Vance fá 1% af eftirstöðvum höfuðstóls skuldabréfs í þeirra eigu, eða sem samsvarar 30 milljónum króna í sérstaka gjaldgreiðslu að því er Morgunblaðið greinir frá.

Ástæðan er sú að skuldabréfið ber skilmála þess efnis að ekki megi afskrá bréf Heimavalla úr kauphöllinni án þess að kröfuhafinn samþykki það, og var því samið sérstaklega við sjóðina þann 8. mars síðastliðinn. Ef skuldabréfið hefði gjaldfallið hefði það virkjað gjaldfellingarheimildir á öllum skráðum skuldabréfum Heimavalla.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um liggur fyrir aðalfundi félagsins í dag tillaga um afskráningu þess úr kauphöll Nasdaq á Íslandi, en hlutabréf félagsins voru tekin til viðskipta á markaði þann 24. maí síðastliðinn.

Á aðalfundinum býður Arthur Irving, fyrrverandi forstjóri samnefnd olíufélags sem verið hefur í stjórninni síðasta árið, eftir að hafa keypt 1% eignarhlut, sig ekki áfram fram í stjórnina , en 6 vilja þau fimm sæti sem eru í boði.

Til að liðka fyrir tillögunni hafa þrír hluthafar ásamt hópi fjárfesta nú boðið í 27% af bréfum félagsins, fyrir 4 milljarða króna, til að losa þá hluthafa, oftast minni aðila, sem ekki hugnast að eiga í óskráðu félagi. Hljóðar tilboðið upp á 1,30 krónur á hlut en útboðsgengið á sínum tíma var 1,33 krónur á hlut, og er markaðsvirðiðið nú 1,27 krónur á hlut.

Hefur verið bent á það að neikvæð umræða um leigufélög hafi ekki tryggt félaginu þau leigukjör og aðkomu fjárfesta sem vænst var með skráningunni, auk þess sem það hafi liðið fyrir innflæðishöftin sem nú er búið að afnema, og eignir þess séu jafnvel verðmætari en markaðsvirði félagsins.