Stjórn N1 leggur til að ekki verði greiddur út arður vegna síðasta árs. Félagið hagnaðist um tæpa 1.160 milljónir króna á síðasta ári og var það talsvert betri afkoma en árið 2011 þegar N1 tapaði rúmum 268 milljónum króna. Í tillögum stjórnar N1 fyrir aðalfund félagsins er vísað til hluthafasamkomulags frá 24. júní árið 2011 og ákvæðis í lánasamningi félagsins við Arion banka og Íslandsbanka þar sem skuldbinding er gefin um að greiða ekki út arð til hluthafa fyrr en eftir skráningu félagsins á markað.

Lánardrottnar N1, Arion banki, Íslandsbanki og meirihluti eigenda skuldabréfa tóku eignarhaldið á félaginu yfir af fyrri eigendum fyrir rétt rúmum tveimur árum.

Aðalfundur N1 verður haldinn í höfuðstöðvum félagsins að Dalvegi á morgun, 7. maí.