Meirihluti stjórnar bandaríska bankans JPMorgan samþykkti í dag 23 milljón dollara greiðslur til Jamie Dimon, forstjóra bankans. Bent er á þetta á vefsíðu fréttaveitunnar CNN og þykir sérstakt í ljósi 2 milljarða dollara taps bankans á óhagstæðu veðmáli nú á dögunum. Ákvörðunin á þó eftir að fara fyrir öryggisnefnd á vegum hins opinbera áður en hún verður endanlega samþykkt.

Þó tveggja milljarða dollara tap síðustu viku sé stórt er ekki búist við að það hafi umtalsverð áhrif á bankann. JPMorgan er stærsti banki Bandaríkjanna með tilliti til eigna. Búist er við að bankinn muni á þessum ársfjórðungi skila margra milljarða hagnaði, þrátt fyrir tapið.