Memento er sprotafyrirtæki sem stofnað var árið 2013 af þremur frumkvöðlum. Stofnendurnir koma úr ýmsum áttum, en þeir áttu sameiginlegan brennandi áhuga á þróun lausna í greiðslumiðlun. Memento var stofnað af Arnari Jónssyni, Gunnari Helga Gunnsteinssyni og Jóni Dal Kristbjörnssyni. Arnar og Gunnar höfðu þá numið verkfræði meðan Jón er forritari.

Brennandi áhugi á greiðslumiðlun

Arnar segir að hugmyndin hafi sprottið af því að vinahópur stofnendanna fann fyrir skorti á greiðslumiðlunarlausn sem gerði notendunum kleift að halda vel utan um skiptingu kostnaðar.

„Okkur fannst vanta lausn sem auðveldaði fólki að rukka og halda utan um kostnað,” segir Arnar. „Eitthvað sem gerði fólki kleift að sjá hvernig skuldastað- an er í rauninni – hvernig gengur að greiða.”

Stofnendurnir komu sér saman um að stofna fyrirtækið eftir að hafa komist að því að þeir höfðu svipaðar viðskiptahugmyndir, en Arnar hafði þá verið að velta fyrir sér leiðum til þess að gera greiðslumiðlun einfaldari og viðmótsvænni.

Í samkeppni við Aur

Kass var þróað af Memento í samstarfi við Íslandsbanka. Appið gerir notendum kleift að millifæra peninga sín á milli, en því er ætlað að keppa við Aur, smáforrit símafyrirtækisins Nova. Samstarfið er byggt á greiðslulausn Memento, Sway, sem var fyrsta greiðslumiðlunarlausnin af þessu tagi á Íslandi.

„Bæði forritin leysa kjarnavandamálið mjög vel – að gera fólki kleift að skipta kostnaði milli sín á einfaldan og rafrænan hátt. Við leggjum þó mikla áherslu á að gera notendum kleift að halda auðveldlega utan um greiðslurnar sínar. Þegar notandinn er til að mynda að rukka tíu manns fer það í eitt yfirlit sem gefur betri yfirsýn yfir eftirstandandi rukkanir.“

Kass minnir einna helst á samfélagsmiðil fremur en fjármálaforrit. Hönnun þess minnir einna helst á vinsælu samfélagsmiðlaforritin Instagram eða Snapchat. „Hönnun forritsins er dálítið smituð af þessum vinsælu samfélagsmiðlum eins og Instagram og Snapchat – við viljum að þetta sé frekar létt í notendaviðmóti og hafi létta byggingu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .