Bæjarstjórn Norðurþings hefur samþykkt að kaupa leikskólahúsnæði á Húsavík fyrir tæplega hálfan milljarð króna. Greint er frá þessu á fréttavef RÚV.

Húsnæðið var upphaflega í eigu Fasteignafélagsins Fasteignar og segir formaður bæjarráðs að þetta hafi verið illskásta leiðin út úr afar óhagstæðum leigusamningi.

„[Þ]að var eindregið niðurstaða okkar, þegar það opnast gluggi að fara út úr þessu í árslok 2014, að það væri ótvírætt skárri kostur fyrir okkur að færa þessa skuldbindingu frá óuppsegjanlegum leigusamningi frá Fasteign inn í það að fjármagna það með lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga,“ segir hann í samtali við RÚV.

Lántakan hljóðar upp á 455 milljónir króna og er lánstíminn 20 ár. Í fasteignaskrá kemur fram að leikskólinn sé 1.254 fermetrar að stærð, en miðað við það nemur fermetraverðið um 362.500 krónum.