„Við greiðum nóg í gjöld en söknum þess að sjá ekki eftirlitið,“ segir Bessi H. Jóhannesson, framkvæmdastjóri lyfjasviðs Icepharma, í samtali við Morgunblaðið.

Þar kemur fram að lyfjaeftirlitsgjald, sem innheimt er sem ákveðið hlutfall af lyfjaveltu í landinu, hafi verið mörgum lyfjafyrirtækjum þyrnir í augum. Gagnrýnt hafi verið að lítið samræmi sé á milli gjaldsins sem innheimt er og eftirlitsins sjálfs sem lyfjafyritækin sæta.

Segir Bessi að eftirlitsmenn Lyfjastofnunar hafi síðast komið í heimsókn til Icepharma árið 2009, og þar áður hafi eftirlitsmenn komið árið 1999 í Thorarensen Lyf, sem sameinaðist Icepharma fyrir fáeinum árum. Engu að síður hafi fyrirtækið þurft að greiða 13 milljónir árlega í eftirlitsgjöld.

Mímir Arnórsson, deildastjóri hjá Lyfjastofnun, segir í samtali við Morgunblaðið að stofnunin sinni margvíslegu eftirliti og geti greiðslur fyrir verkefnin verið mismunandi eftir því hverjir eftirlitsþegarnir séu. Í fyrra hafi tekjur af eftirlitsgjöldum verið alls 117 milljónir króna og hafi verið nánast óbreyttar síðustu fimm ár.