Landsvirkjun mun greiða eigendum sínum 1,5 milljarða króna í arð vegna síðasta árs. Stjórn Landsvirkjunar lagði fram tillögu þessa efnis og var hún samþykkt á aðalfundi Landsvirkjunar í dag. Landsvirkjun hagnaðist um 54 milljónir dala í fyrra, jafnvirði 6,6 milljarða íslenskra króna.

Á aðalfundinum var stjórn Landsvirkjunar jafnframt endurkjörin. Aðalmenn eru Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst og formaður stjórnar Landsvirkjunar, Sigurbjörg Gísladóttir, efnafræðingur við Umhverfisstofnun, Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, Stefán Arnórsson, prófessor við Háskóla Íslands og Arnar Bjarnason, framkvæmdastjóri Reykjavík Capital. Varamenn í stjórn Landsvirkjunar voru kjörnir Magnús Árni Magnússon, dósent við Háskólann á Bifröst, Andrés Ingi Jónsson, Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur, Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, bóndi.