Hæstiréttur Íslands hefur fellt dóm sem kveður á um að  skrá beri vatnsréttindi jarðeigenda við Jökulsá á Dal í fasteignaskrá. Þetta þýðir að Fljótsdalshérað getur innheimt fasteignagjöld af vatnsréttindunum en eigandi þeirra er Landsvirkjun. Dómurinn er í samræmi við úrskurð innanríkisráðuneytisins frá 2012. Landsvirkjun höfðaði mál gegn Fljótsdalshéraði og Þjóðskrá íslands vegna úrskurðarins. Fyrir ári síðan féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem úrskurður ráðuneytisins var felldur úr gildi. Þjóðskrá og Fljótsdalshérað áfrýjuðu dómnum og hefur Hæstiréttur nú snúið honum við.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir ákveðin létti að niðurstaða sé komin í málið. „Þetta er búið að taka langan en við erum að sjálfsögðu sátt við dóminn," segir Björn. "Hann var í samræmi við það sem við töldum eðlilegt. Ég skyldi í sjálfu sér rök forsvarsmanna Landsvirkjunar. Þeir töldu að lögskýringin væri frekar loðin og því væri eðlilegt að láta skera úr um þetta, sem hefur nú verið gert."

Kárahnjúkavirkjun er í Fljótsdalshéraði, Jökulsá á Dal rennur um sveitarfélagið og allar stíflur og lón því innan marka þess. Sjálft stöðvarhúsið er hins vegar í Fljótsdalshreppi en um 70 manns búa í sveitarfélaginu. Til samanburðar búa 3.500 manns í Fljótsdalshéraði. Árið 2013 námu tekjur Fljótsdalshrepps um 137 milljónum, þar af voru 106 milljónir vegna fasteignaskatts og langstærsti hlutinn af þeirri upphæð er vegna stöðvarhússins. Forsvarsmenn Fljótsdalshéraðs hafa ítrekað bent á ósanngirnina sem fólgin er í þessu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að dómur Hæstaréttar í umræddu máli sé tímamótadómur, sem muni væntanlega í framtíðinni leiða til jafnari skiptingar fasteignagjalda á milli sveitarfélaga, þar sem áhrifa af virkjunum gæti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .