Bandaríski netleitarrisinn Yahoo! hefur keypt fyrirtækið Summly sem þróað hefur samnefnt smáforrit. Forritið dregur saman helstu atriði frétta og birtir samantekt sem eigendur iPhone-síma geta lesið á skjám síma sinna. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp. Engu að síður hefur sá orðrómur verið á kreiki að fyrirtækið hafi greitt 30 milljónir dala með reiðufé. Það hafi jafngilt 90% af kaupverðinu. Afgangurinn var greiddur með hlutabréfum í Yahoo. Þetta er engin smáræðis upphæð en 30 milljónir dala jafngilda 3,7 milljörðum íslenskra króna.

Netmiðillinn CNET segir forritið keypt dýru verði og bendir á að einungis sé búið að hala niður einni milljón eintaka af smáforritinu síðan það var sett á markað í desember árið 2011. Þá er allsendis óvíst hverjir tekjumöguleikar forritsins eru.

Það sem vakið hefur meiri athygli en kaupin á forritinu og verðið á því er höfundur þess. Sá er breskur, heitir Nick D'Aloisio og er aðeins 17 ára gamall. Hann stofnaði fyrirtæki utan um þróun forritsins fyrir tveimur árum, þegar hann var fimmtán ára. Hann vakti fljólega athygli fjárfesta en á meðal bakhjarla hans frá fyrstu tíð eru Horizons Venture, félag Li Ka-Shing, eins auðgasta manns Asíu, breski leikarinn og græjukallinn Stephen Fry auk bandaríska leikarans Ashton Kutchers.

Lesa má nánar um D'Aloisio á vef Summly .