Landsvirkjun hefur greitt upp ríkistryggð skuldbréf að fjárhæð 50 milljónir dollara eða sem nemur um 7,1 milljarði króna. Skuldarbréfin, sem gefin voru út árið 2006, voru á gjalddaga í febrúar 2026. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Við uppgreiðsluna lækkar hlutfall lána Landsvirkjunar með ríkisábyrgð í um 10% af heildarlánum Landsvirkjunar en eftirstandandi lán með ríkisábyrgð eru einnig frá árinu 2006.

„Endurkaup skuldabréfanna endurspegla sterka fjárhagsstöðu Landsvirkjunar og eru liður í skuldastýringu fyrirtækisins.“

Eignir Landsvirkjunar í lok september námu 4.577 milljónum dala eða um 649 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Skuldir námu 2.124 milljónum dala en þar af voru vaxtaberandi skuldir 1.479 milljónir dala. Eigið fé var 2.453 milljónir dala eða 360 milljarðar króna.

Landsvirkjun birti árshlutauppgjör fyrr í mánuðinum. Landsvirkjun hagnaðist um 69,1 milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur 9,8 milljörðum króna á gengi dagsins, á þriðja ársfjórðungi. Um er að ræða 45,7% aukningu frá sama tímabili í fyrra.