*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 2. ágúst 2020 19:01

Greiða úr frumskógi skipulagsmála

Hugbúnaðarfyrirtækið Planitor vinnur að stafrænum lausnum fyrir skipulagsmál og mannvirkjagerð á Íslandi.

Alexander Giess
Talsverð uppbygging hefur verið í Reykjavík undanfarin misseri en erfitt reynist að fylgjast með byggingaáformum að mati stofnenda Planitor.
Haraldur Guðjónsson

Planitor er hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að þróun upplýsingagáttar og stafrænum lausnum fyrir skipulagsmál og mannvirkjagerð á Íslandi. Upplýsingagáttin, sem er í bígerð, á að endurbæta núverandi miðlun á fundargerðum sveitarfélaga því erfitt hefur reynst að vakta þær og öðlast yfirsýn yfir byggingaráform og aðrar breytingar á hinu byggða umhverfi.

Fyrsta veflausn Planitor mun færa skipulags- og mannvirkjatengdar fundargerðir á Íslandi í upplýsingagátt sem byggir á leitarvél. Ekki verður tekið gjald fyrir notkun leitarvélarinnar en þóknun verður innheimt fyrir vöktunarlausnir fyrirtækisins. Þar verður hægt að fá tilkynningar þegar mál, skipulagsáætlanir, málsnúmer, kennitölur og fleira birtast í fundargerðum um leið og þær verða opinberar.

Stofnendur Planitor eru Guðmundur Kristján Jónsson skipulagsfræðingur og Jökull Sólberg Auðunsson, sérfræðingur í stafrænni þróun. Guðmundur hefur starfað um árabil sem ráðgjafi í skipulagsmálum og hefur meðal annars aðstoðað fasteignafélög og fjárfesta varðandi mögulegar nýtingar á byggingaheimildum. Hann hefur lengi langað að umbreyta aðgengi og miðlun upplýsinga um skipulags- og byggingarmál með tilliti til hugbúnaðargerðar og stafrænnar þróunar.

Þar kemur Jökull til sögunnar en hann stýrir þróun á hugbúnaðarlausnum félagsins. Guðmundur segir lausnir Planitor að einhverju leyti eiga að sinna því starfi sem sérfræðingar í skipulagsmálum sinna og því aðstoða við að „greiða úr þeim frumskógi sem skipulagsmál sveitarfélaganna geta verið“.

Spurður um væntan markhóp segir Jökull að viðskiptavinir þeirra séu sambærilegir notendum CreditInfo, annars vegar einstaklingar og hins vegar fyrirtæki og stofnanir. Þar má nefna einstaklinga sem vilja fletta upp vissum fundagerðum, lögfræðinga sem þurfa að rekja mál, auk byggingaraðila, en allir þessir aðilar hafa mikinn hag af betri yfirsýn yfir framþróun byggingaog skipulagsmála. Hann segir að einungis þrjú sveitarfélög landsins bjóði upp á sjálfvirka vöktun á fundargerðum og því mikil þörf á úrbótum.

Sveitarfélögin eftir á í stafrænum lausnum

„Eins og fyrirkomulagið er núna flytjast fyrirspurnir og umsóknir oft á milli embætta skipulags- og byggingarfulltrúa. Gjarnan rata stærri mál svo til pólitískt skipaðra skipulagsráða á seinni stigum og þannig geta mál flakkað á milli staða í kerfinu í langan tíma. Til að taka Reykjavíkurborg sem dæmi þá er mjög gamaldags miðlun á þessum fundargerðum.

Fólk þarf að endurhlaða vefinn til að sjá málið sitt þar sem enginn vaktari eða önnur leið er til staðar svo hægt sé að fá upplýsingar sjálfvirkt. Heilt yfir eru sveitarfélögin rétt svo að sinna upplýsingaskyldu, engu umfram það,“ segir Jökull.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.