*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 9. mars 2018 08:32

Greiða út 10 milljörðum minni hagnað

Hagnaður félaga í kauphöllinni hefur dregist saman um 15% frá árinu 2015 en 40% hans fer í arð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Útlit er fyrir að skráðu félögin á hlutabréfamarkaði greiði um 19,5 milljarða króna til hluthafa sinna vegna reksturs 2017, eða tæplega 40% af hagnaði ársins.

Arðgreiðslurnar hafa dregist saman, bæði í krónum talið sem og í hlutfalli af markaðsvirði félaganna, frá því að þær náðu hámarki árið 2016. Þá voru þær 29 milljarðar króna í heildina, svo samdrátturinn nemur um 10 milljörðum króna að því er greiningardeild Arion banka bendir á. 

Ekki lægra síðan 2014

Hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan árið 2014 í það minnsta, en það miðast við að 15 af 17 félögum á aðallista Kauphallarinnar hafi nú skilað ársuppgjörum sínum fyrir síðastliðið rekstrarár.

Með nokkurri einföldun má segja að fjárfestir sem keypti körfu hlutabréfa í Kauphöll Íslands fái nú kaupverðið endurgreitt á tæpum 42 árum samanborið við 26 ár árið 2016. 

Hjá 7 af 16 félögum Kauphallarinnar dróst samanlagður hagnaður félaganna saman, en mestur var samdrátturinn hjá Icelandair Group, eða um tæplega 6 milljarða króna á milli ára. Hagnaður fyrirtækjanna hefur þó dregist saman ár frá ári frá árinu 2015, og er hann nú tæplega 15% minni en þá.

Fjögur félög greiða ekki út arð

Stærsta félagið hlutabréfamarkaðarins, Marel, greiðir stærstu arðgreiðsluna, eða rúmlega 3,6 milljarða, sem samsvarar 30% af hagnaði síðastliðins rekstrarárs. Þar á eftir koma Reitir og TM með 2,5 milljarða hvort, en sú upphæð skiptist á milli annars vegar arðgreiðslu og hins vegar endurkaupaáætlunar.

Fjögur félög hyggjast ekki greiða út arð til sinna hluthafa, það eru Origo og Reginn sem hafa ekki greitt arð undanfarin ár, auk Vodafone og N1 sem hafa staðið í sameiningum.

Hagar er eina félagið sem hefur ekki gefið út arðgreiðslu sína, en fjárhagsár fyrirtækisins er gert upp að sumri, en þar sem fyrirtækið stendur einnig í sameiningum telur bankinn mögulegt að það kjósi að hverfa einnig frá arðgreiðslu.

Stikkorð: Hagar Marel Icelandair Reginn N1 Kauphöllin hagnaður arður Origo