Félagið NVG, sem hélt utan um hluta af eignarhlut Novator og tengdra aðila í gagnaversfyrirtækinu Verne Global, greiddi út 3,25 milljarða króna með lækkun hlutafjár í haust.

Útgreiðslan kemur í kjölfar þess að fjárfestingafélagið Digital 9 Infrastructure (D9) keypti Verne fyrir 231 milljón punda eða um 40,7 milljarða króna í byrjun september. Um miðjan nóvember var tilkynnt um að D9 myndi fjármagna 6,6 milljarða króna stækkun á gagnaveri Verne á Ásbrú sem á að bæta afkastagetuna um 10 megavött.

NVG bókfærði eignarhlut sinn í Verne Holding á rétt undir 2 milljarða króna í árslok 2020. Björgólfur Thor Björgólfsson fer óbeint með 94% hlut í NVG samkvæmt fyrirtækjaskrá.

Sjá einnig: Fá sex milljarða eftir sölu Nova

Viðskiptablaðið greindi frá því nýlega að annað félag á vegum Novator, Novator Nova ehf., greiddi út 5,95 milljarða króna til hlutahafa með lækkun hlutafjár í kjölfar sölu á helmingshlut í Nova til bandaríska fjárfestingafélagsins Pt. Capital. Reliquum, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, á 88,5% hlut í Novator Nova.