*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 22. mars 2018 07:24

Greiða út 900 milljóna arð

Síldarvinnslan hagnaðist um 2,9 milljarða á síðasta ári en tekjurnar voru alls 18,5 milljarðar á árinu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hagnaður Síldarvinnslunnar á síðasta ári nam 2,9 milljörðum króna, en opinber gjöld af starfsemi fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 4,5 milljarði króna segir í fréttatilkynningu á vef fyrirtækisins. Félagið mun greiða 901 milljón krónur í arð en Samherji er stærsti hluthafinn með 44,64% eignarhlut miðað við ársreikning fyrir árið 2015.

Aðrir stórir hluthafar eru Gjögur hf. með 34,23%, Samvinnufélag útgerðarmanna Neskaupsstað með 10,97% og Olíusamlag útvegsmanna Neskaupsstað svf með 0,84% en aðrir eiga minna. Í heildina eru hluthafar um 200 talsins.

Jafnframt er tekið fram að afli skipa samstæðunnar var 163 þúsund tonn á síðasta ári, fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 197 þúsund tonnum af hráefni, fiskiðjuverið tók á móti 47 þúsund tonnum af hráefni til frystingar og umm frystigeymslur félagsins fóru 64 þúsund tonn af afurðum. Framleiddar afurðir voru 105 þúsund tonn í heildina.

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2017 voru alls 18,5 milljarðar króna, samanborið við 22,5 milljarða árið 2016 og rekstrargjöld námu 13,8 milljörðum króna. EBITDA var 4,7 milljarðar króna.

Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 122 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 3,5 milljörðum króna, samanborið við 6,2 milljarða árið 2016. Reiknaður tekjuskattur nam 630 milljónum króna og var hagnaður ársins því 2,9 milljarðar króna. 

Fjárfestingar og gjöld

Á árinu 2017 greiddu Síldarvinnslan og starfsmenn 4,5 milljarða króna til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur var 1.320 milljónir króna og veiðigjöld voru 530 milljónir. Þá voru kolefnisgjöld 170 milljónir króna. Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 360 manns til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 3.700 milljónir króna á árinu 2017 en af þeim greiddu starfsmenn tæpar 1.200 milljónir í skatta.

Samtals námu fjárfestingar félagsins 850 milljónum króna en helstu fjárfestingarnar í fastafjármunum voru áframhaldandi uppbygging í uppsjávarvinnslu félagsins.

Í lok síðasta árs var samið við skipasmíðastöðina VARD Aukra í Noregi um smíði á tveimur nýjum 29 metra togskipum sem myndu leysa Vestmannaey og Bergey af hólmi. Áætlað er að smíði hvors skips taki 14 mánuði og er gert ráð fyrir að fyrra skipið verði afhent okkur í marsmánuði 2019 og hið síðara tveimur mánuðum síðar.

Á árinu var togarinn Barði NK seldur til Rússlands. Salan á Barða og Bjarti árið 2016 er liður í endurnýjun ísfisktogaraflota Síldarvinnslunnar.

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar í árslok 2017 voru bókfærðar á 51,4 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 9,7 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 18,5 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 32,9 milljarðar króna. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 64%.

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær, var samþykkt að greiða 0,53 krónur  á hlut í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2017. Skal miða arðgreiðsluna við kaupgengi Seðlabanka Íslands á aðalfundardegi. Greiðsla arðsins fer fram 28. mars 2018. Þá var samþykkt að stjórnarlaun yrðu 175 þúsund kr. á mánuði.

Starfsemi

Afli bolfiskskipa samstæðunnar var um 20.000 tonn á árinu sem voru að verðmæti 4,6 milljarður króna. Afli uppsjávarskipa var 143 þúsund tonn að verðmæti 3,7 milljarðar yfir árið. Heildaraflaverðmæti afla skipanna var 8,3 milljarðar króna og aflamagn 163.000 tonn á árinu.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 197 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2017. Framleidd voru 40 þúsund tonn af mjöli og 11 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru framleidd 51 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu að verðmæti 7,3 milljarðar króna.

Í uppsjávarvinnsluna var landað 47 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru tæp 39 þúsund tonn. Þar vega síldarafurðir þyngst og síðan makrílafurðir og loks loðnuafurðir. Verðmæti framleiðslunnar var 5,6 milljarðar króna. Um frystigeymslurnar fóru 64 þúsund tonn af afurðum á árinu. Samtals nam framleiðsla á afurðum rúmum 105 þúsund tonnum á árinu 2017 að verðmæti 16,3 milljarðar króna.

Ef árið er borið saman við árið á undan, var framleiðsluaukning 16% en á sama tíma samdráttur í tekjum um 11%. Þannig var um 25% verðlækkun að meðaltali á afurðum að ræða. Sömu sögu er að segja af útgerðinni þar var 18% aukning í aflamagni en 14% samdráttur í aflaverðmætum skipanna.

Stikkorð: Samherji Síldarvinnslan tekjur arður
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is