Þingmaðurinn Tryggvi Þór Herbertsson greiddi upp 38 milljóna króna lán frá félaginu Varnagla í fyrra. Tryggvi stofnaði félagið Varnagla utan um hlutafjáreign sína í fjárfestingarbankanum Askar Capital en hann var ráðinn forstjóri bankans árið 2006. Hann fékk 300 milljóna króna kúlulán hjá bankanum og Glitni til að kaupa hlutabréf Askar og setti það inn í félagið. Tryggvi tók sér frí frá störfum sem forstjóri þegar hann gerðist efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og seldi bankanum einkahlutafélagið.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu var félagið úrskurðað gjaldþrota í byrjun mánaðar. Skuldir félagsins námu 800 milljónum króna á móti 400 þúsund króna eignum.

Í DV í dag er fjallað um 25 milljóna króna lán í erlendri mynt sem Varnagli veitti Tryggva áður en hann seldi félagið til Askar. Tryggvi segir í samtali við blaðið hafa greitt lánið í fyrra.

Árétting: Tryggvi Þór gerir í dag alvarlegar athugasemdir við frétt DV af málinu og segir hana kolranga.