Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur staðfest niðurstöðu Skattsins þess efnis að einkahlutafélag fái ekki endurgreiðslu á skattkröfu sem prókúruhafi greiddi fyrir mistök. Taldi ráðuneytið að ekki væri til lagaheimild sem gerði mögulegt að fallast á kröfu félagsins.

Í maí á þessu ári var framkvæmd gírógreiðsla í gegnum heimabanka félagsins vegna skattkröfu annars manns. Upphæðin nam tæpum 80 þúsund krónum. Í erindi félagsins segir að umrædd krafa sé til komin vegna fyrrverandi tengdasonar prókúruhafa félagsins. Skuldir hans séu félaginu algjörlega óviðkomandi og því beri að endurgreiða fjárhæðina. Fór félagið því fram á að upphæðin yrði endurgreidd.

Afgreiðsla Skattsins var á þann veg að hafna erindinu. Stjórnvöld væru bundin af jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttarins hvað álagningu og innheimtu skatta varðar. Sérstakar lagaheimildir þurfi að vera í lögum til að veita einstaklingum ívílnun á borð við endurgreiðslu greiddra greiðslna, sem greiddar hafi verið vegna réttilegra álagðra skatta, og mótteknar af embættinu í góðri trú. Engin slík heimild væri til og erindinu því synjað.

Ráðuneytið staðfesti þennan skilning Skattsins. Stjórnvöldum beri að vísu að endurgreiða það sé sem ofgreitt er ásamt vöxtum ef í ljós kemur að greiðslan hafi ekki verið í samræmi við lög.

„Þar sem í tilfelli þessu er um að ræða greiðslu þriðja aðila fyrir eigin mistök á rétt álögðum sköttum annars manns er ekki unnt að byggja endurgreiðslu á [téðu] lagaákvæði,“ segir í úrskurði ráðuneytisins. Það benti kæranda málsins þó á að unnt væri að leita til umboðsmanns Alþingis vegna afgreiðslu stjórnvalda, meðal annars vegna meinbuga á lögum.