Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) felldi nýverið úr gildi ákvörðun byggðaráðs Norðurþings um að synja íbúa um endurskoðun og endurgreiðslu álagningar sorphirðugjalds vegna áranna 2018 og 2019. Sveitarfélagið hafði rukkað kæranda málsins um sorphirðugjald þrátt fyrir að endar ruslatunnur væru við hús hans.

Aðdragandi málsins er sá að árið 2018 hafði maðurinn keypt húsnæði, nánast gegnt Húsavíkurkirkju, með það að innrétta það upp á nýtt og leigja út til ferðamanna í skammtímaleigu. Eftir kaupin komst eigandinn að því að sorphirðumál væru í ólestri og að tunnur hans væru sjaldan tæmdar. Óskaði hann því eftir því að sorpílát yrðu fjarlægð og þjónustu hætt. Var það gert. Í staðinn samdi hann fyrir fyrirtæki um að útvega sér gám og sjá um að tæma hann.

Í maí í fyrra fannst rekstraraðilanum að kostnaður við sorphirðu væri nú ansi hár og fór að kanna málið. Kom þá í ljós að sveitarfélagið hafði lagt sorphirðugjald á umrædd fastanúmer enda væri húsnæðið skráð sem íbúðarhúsnæði en ekki atvinnuhúsnæði. Síðarnefndi flokkurinn væri undanþeginn greiðslu gjaldsins en eigendur allra fasteigna í fyrri flokknum þyrftu að greiða gjaldið. Var þess óskað að gjaldið yrði fellt niður en byggðaráð Norðurþings hafnaði því síðasta sumar.

Í úrskurði ÚUA kom fram að kærufrestur vegna álagningu gjaldsins árin 2018 og 2019 hefði runnið út og var kröfu um niðurfellingu þeirra því vísað frá. Álagning ársins 2020 hafði þegar verið felld niður og kröfu um niðurfellingu hennar einnig vísað frá. Kæra vegna synjunar á endurskoðun og endurgreiðslu, samkvæmt erindi í maí 2020, þótti aftur á móti hafa borist innan frests.

„Þau rök voru færð fyrir synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda um endurskoðun að það „sjái sér ekki fært“ að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda án þess að rakið væri af hvaða orsökum það væri,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Þá var einnig vikið að því að ekki yrði séð að sorphirðugjaldskrár umræddra ára hefðu verið birtar með réttum hætti í B-deild Stjórnartíðinda. Sökum þess hafi verið fullt tilefni fyrir sveitarfélagið að taka afstöðu til lögmæti álagningarinnar og hvort lagarök hnigu til þess að endurskoða hana. Ákvörðunin var því felld úr gildi og málið sent á ný norður.